Ýmis ónot fylgja því að vera á lífi. Þau eru oftast meinlaus. Með áróðri má þó draga þau í flokk kvilla og sjúkdóma svo hagnast megi á að selja lækningu. Fyrir um hálfri öld hófst árangursríkasti áróðurinn af þessu tagi. Meinið sem blásið var upp hét leiði. Meðalið við því varð ein mikilvægasta markaðsvara Vesturlanda: Afþreying. Sérstakt heimilistæki var fundið upp til að lina þjáningar okkar og það varð brátt að hjarta heimilisins.
Eins og gjarnan er með afar ábatasama vöru hækkaði meðalið í tign og varð að hugmyndafræði, næstum trúarsetningu: Afþreying sem lífsfylling. Meðalið varð að tilgangi. Þetta var afdrifaríkt fyrir allar listir og gjörbreytti tónlistarheiminum.
Það væri kíkótískt áræði að leggja þetta meðal spjótum. Það er rótfast í hagkerfinu og þar með lífinu. Kannski má samt glósa nokkur orð um málið.
1) Ég vinn og samkomulag er um að auk mín hagnist einhver annar á vinnunni. Utan vinnu á ég frítíma. Eitt sinn fór hann í hvíld, skemmtun, dundur og snatt eða spjall. Og þótt kannski væri erfitt að koma því í kring gat ég jafnvel látið mér leiðast.
2) Svo kom maður og sagði: "Hvíld og skemmtun eru gamaldags. Nú heitir það afþreying. Með henni skal ég innrétta frítíma þinn, annars kemst leiðinn þar inn eins og rotta." Eftir þetta gat líka einhver hagnast á frítíma mínum. Ég veit ekki hvort ég samþykkti það.
3) Frítíminn, minn tími, er ÞAÐ EINA SEM ÉG Á. Hann er mjög eftirsótt góss því hersingar byggja hag sinn á honum. Ég get séð af einhverju, en förum hægt í sakirnar. Annars er ég að gengisfella mitt líf, með öðrum orðum: Mig.
4) Ágangur mangaranna er mikill. "Slepptu þér " segja þeir, "gefðu leiðanum langt nef". Og menn sleppa sér: Afþreying er ekki eitthvað sem ég hlusta á heldur geng ég inn í heim hennar. Hún stækkar mig ekki heldur gleypir. Þetta er snjallt: Auk þess að græða á frítíma mínum má ýta með henni á skoðanir mínar. Stjórna mér svolítið.
5) Engar áhyggjur samt. Það er ekki hægt að slökkva á fólki nema í bili. Fylgjumst bara með því hvort við stjórnum afþreyingunni eða hún okkur. Fíknin liggur í leyni og fíklar slökkva á sjálfum sér. Og ef illa fer verður afþreying krabbamein tímans.
6) Komdu leiði og gerðu mig að konungi í eigin ríki á ný. Ríki míns eigin tíma þar sem þú ert hreyfill hugarflugsins.