Listamaður sem biður um lífsviðurværi fær stundum lítil svör.  Sýna má fram á að iðja hans er í raun þjóðhagkvæm en sú röksemd hefur einn galla:  Hún blandar arðsemi í málið.  Ávinningur sköpunar er ekki efnahagsleg stærð.  Hann felst í því sem nefna mætti innra gildi.

Kannski ég reyni að varpa ljósi á þetta.

1) Ríkur maður borgar meiri skatt en ég því ríkidæmið á uppruna sinn í samfélaginu.  Hann hefur notið góðs af virðisaukandi efnahagslegu gildi þess sem er auðvitað langt umfram hans eigin fjárfestingar.  Athafnir hans eru þó væntanlega líka til hagsbóta fyrir heildina.
2)  Hann nýtur ekki aðeins góðs af efnahagslegum mætti samfélagsins því hann nýtir sér líka gildið sem stendur á bak við þennan mátt og myndar innihald mannlegra athafna, þekkingu, merkingu, ímynd.
 3)  Til eru menn sem munu aldrei geta hagað hugsunum sínum eða athöfnum eftir arðsemi þeirra.  Þeir eru helteknir af uppgötvun eða sköpun og sú iðja hlítir eigin lögmálum.  Þetta eru hinir heilögu fávitar sem við köllum vísindamenn, hugsuði og listamenn.  Þeir gætu fyrir slysni komist í efni en oftast eru laun þeirra rýr.
4)  Rétt eins og til er fæðukeðja í náttúrunni mætti tala um nytjakeðju í mannfélaginu.  Allt það sem ríki maðurinn græðir á er endi langrar keðju:  Vara, vinnsluaðferð, auglýsing, ímynd eða kerfi nýtir sér uppfinningamann sem nýtir sér verkfræðing sem nýtir sér stærðfræðing og svo koll af kolli. Einhvers staðar neðst í keðjunni er vinna skapandi manns sem smýgur um heim hugmyndanna eins og ánamaðkur í mold og breytir rotnun í líf. Vinna skapandans mótar reyndar einnig þann heim þar sem varan er eftirsóknarverð: Hún býr til skynjun á heiminum.  Býr til heiminn eins og við skynjum hann.  Allt innihald, sjálf merking lífins byggir á vinnu heilagra fávita.
5)  Það er gott að vita að einkafyrirtæki hafa aukið stuðning við listir.  Þessum stuðningi má samt ekki rugla saman við líknarmál:  Hann er í raun endurgjald fyrir innra gildi.  Sem efnislífið þrífst á.  Menn andans eru hvorki ölmusu- né athafnamenn.  Samfélag sem setur þá í þessi hlutverk geldist.
6)  Ríkið ætti að viðurkenna skuld fyrirtækja við skapendur með því að búa í haginn fyrir kostun: Veita skattaívilnun.  Það er þó verra ef þetta dregur úr hlut ríkis í menningarlífinu.  Kostun er eingöngu til að gæða það meira lífi, auka á fjölbreytni og gera vöxt þess ófyrirsjáanlegri.  Heilbrigður vöxtur er nefnilega alltaf villtur og óheftur vöxtur.