Tölvuteiknaðar myndir sem sýndust bara vera litamynstur. Munið þið eftir þeim? Ef maður horfði rétt á þær birtist þrivíddarmynd af fallegu landslagi, hesti eða einhverju.
Mér tókst aldrei að sjá neitt út úr þessu. Því hef ég dálitla samúð með fólki sem finnst nútímatónlist ekki vera annað en myndlausar slettur á hljóðhimnunni. Ég hef ekki samúð með þeim sem fyrirlíta hana fyrir það.
En hvernig á þá að "horfa" á þessa ósönghæfu tónlist?
1) Kallinn sem var að selja þrívíddarmyndina reyndi að hjálpa mér: "Fá rétta fjarlægð" sagði hann. "Horfa ekki í fókus. Gleyma sér". Þetta eru nokkuð holl ráð fyrir þann sem finnst einhver tónlist torgripin. Óvant eyra nemur meiri upplýsingar en það ræður við. Smáatriðin trufla. Eins var með myndlistina: Pensilförin trufluðu augað á fyrstu árum impressjónismans. Svo vandist augað og heildarmyndin birtist. Smám saman hvarf fordómurinn um hvað ætti að vera á myndinni.
2) Nefnum líka ljóðin: Sá sem les of smásmugulega og leitar að röklegum, hlutlægum skilningi villist gjarnan. Að skilja ljóð er ekkert annað en að upplifa það á þess eigin forsendum, að leyfa því að kveikja mynd eða ný hugsanatengsl. Til þess þarf enga sérstaka þekkingu, bara það sem kalla mætti samhygð, innlifun, innsæi. Sá sem "fílar" ljóðið skilur það. Uppskeran verður meiri og fyrirhöfnin minni en margir halda.
3) Að skilja er ekki það sama og að unna. Við myndum samband við það sem við unnum en orðið "skilningur" lýsir því tæpast. Það sama á við um listaverk.
4) En með músíkina: Ráðvilltur hlustandi gæti spurt hvar stefið er, hvað sé aðalatriði, hvar séu kaflaskil og hvað þetta tákni. Þetta mundi hann heyra ef höfundurinn hefði talið það nauðsynlegt. Svo er eins og margir leiti bara að "fegurð", huggun og andakt í tónlist. Allt sýnir þetta fordóma. Jú, músík getur verið ágætt geðlyf, en hún er líka óendanlega margt annað: Víma, dans sársauki, háð, öskur, fjör, ljóð, ögrun og allt hitt. Í stuttu máli: Líf. Og eins og lífið er tónlist hvorki heilög né göfug. Hún er bara sönn.
5) Hlustum á kallinn með tölvumyndina. Það getur jafnvel borgað sig að líta ekki á þetta sem tónlist. Er þetta ekki bara einhver atburður sem á sér stað meðan vill svo til að við sitjum í nágrenninu? Og hvað ef við gleymum okkur á meðan. Hver veit nema að verkinu loknu sitji einhver ný mynd eftir í sálinni. Þá uppgötvum við kannski að í því bjó meiri huggun en við héldum: Sú huggun að nokkurt vit sé þrátt fyrir allt í því að sitja hér einmitt nú, að lifa í nútímanum en ekki fortíðinni, að fylgjast með sköpun heimsins og taka þátt í henni.