Strengur framkallar tón með því að sveiflast.  Snemma komust menn að því að í raun sveiflast hann ekki bara í heilu lagi.  Á sama tíma sveiflast helmingarnir líka hvor um sig, líka hver þriðjungur, fjórðungur, fimmtungur o.s.frv.  Hver þessarra aukasveiflna gefur sinn tón.

Ef allir þessir tónar eru lagðir saman fáum við það sem kalla mætti hljóðróf.  Það er eins og risavaxinn hljómur þar sem neðst er langt á milli tóna (áttund) og síðan æ styttra rétt eins og hlutföllin gefa til kynna. Þótt við þykjumst bara heyra tónbotninn, tóninn sem allur strengurinn gefur, heyrum við í raun allt hljóðrófið án þess að taka eftir því.  Þetta á við um alla tóna sem okkur berast til eyrna. 

Þetta er náttúrulegt fyrirbæri og skýrir að nokkru leyti hvernig við upplifum blíðan og stríðan hljóm.  Neðstu tónarnir hljóma saman í mesta samlyndi en streita milli tóna eykst eftir því sem ofar dregur.  Sá samhljómur sem við erum vön í hefðbundinni tónlist byggir á fimm neðstu tónum hljóðrófsins.

1)  Lýsa mætti tónlistarsögunni sem fjallgöngu eyrans upp eftir hljóðrófinu.  Það er nokkuð gróf en gagnleg einföldun.
2)  Í árdaga var fullkominn samhljómur takmarkaður við neðstu þrjá tónana.  Á endurreisnartímanum vann fimmti tónninn sér sess í samfélagi ómblíðunnar.
3)  Ekki komust fleiri tónar þangað inn lengi vel, en tónlistin sótti æ oftar allt upp í 9. tón og ekkert minna en 7. og 17. tónn heilsa okkur í upphafi brúðarmarsins eftir Mendelsohn (1830).
4)  Litameistarar eins og Debussy og Ravel unnu markvisst að því að opna eyru okkar fyrir efri svæðum hljóðrófsins og sýndu fram á að þau þurfa ekki að vera svo hvöss að heyra.
5)  Ástæður þessa ferðalags voru ekki fræðilegar.  Tilfinningin, skynjunin, leituðu eins og ósjálfrátt inn á ný svæði.  Enda gerðist þetta ekki síður í rokkinu en skrifaðri tónlist:  Vælandi og urrandi gítarsóló voru ekkert annað en glefsur af efri hluta hljóðrófsins.  Það var rokkið sem sýndi fram á að stríður hljómur og nautn áttu ágætlega saman.
6)  Eftir því sem ofar dregur í hljóðrófinu verður smám saman ógerningur að greina mun tónanna og þeir renna saman í samfellt hljóð, sem er þá hávaði en ekki hljómur.  Hristur, trumbur og gjöll alls konar eru verkfæri til að framkalla hávaða.  Þetta geta hátalarar auðvitað líka.
7)  Rokkið og nútímatónlistin hittust allt í einu á leikvelli sem hét hávaði og hafa átt talsverða samleið síðan.  Þá hafði hávaðinn reyndar verið hagvanur sums staðar í Afríku frá ómunatíð.