Hljóðfall, - í faginu er alltaf sagt rytmi - þar býr hin leynda sál tónlistarinnar. Slagkraftur tónverksins felst í þessu jafna eða skrykkjótta klukkutifi sem er eins og litur tímans, en er þó líka hinn holdlegi þáttur lagsins, jarðtengingin. Á rytmanum flýtur allt hitt inn í afkima hugans: Texti, laglína, hljómar.
Nútímamúsíkin hrærir í hljóðfallinu. Hún leysir upp púls, blandar púlsum, umbreytir púlsi í tón eða mynstur eða hver veit hvað. Hún vinnur gjarnan með hljóðfall eins og abstraktmálari með form, þótt útkoman geti verið margvísleg og misjafnlega abstrakt. Hljóðfall í dægurtónlist er ekki síður áhugavert. Þar birtist blær þess hreinn og klár og viss sálræn og líkamleg tenging blasir við.
1) Flest dægurlög eru í fjórskiptum takti. Innan þess ramma rúmast þó ótal tilbrigði sem skilgreina nánar hvernig tónlist þetta er: Hvað spilar bassinn margar nótur í takti og hvar eru áherslur? Hvaða mynstur myndar trommusettið ásamt smærri slaghljóðfærum, t.d. tambúríni eða hristu?
2) Þegar nýr stíll ryður sér til rúms er hljóðfallið alltaf það sem best greinir hann frá annarri músík, þótt hljóðfæraskipan, inntak og hljómar hafi líka mikið að segja.
3) Þegar rokkið breiddist út um heiminn fólst aðdráttarafl þess helst í kraftmiklum hnykk á reglulegt taktslag í fjórkvæðum takti. Svo dæmi sé nefnt hefur rokkabillí yfir sér ófyrirleitinn, fjörugan og jafnvel ósiðlegan blæ: Fjögur þung og þrútin slög, aftur og aftur lagið á enda.
4) Smám saman dró svo úr þunga á 1. og 3 slagi. Léttari taktur með aðaláherslu á 2. og 4. slag varð ofan á, enginn ágengur sláttur alveg fremst í takti. Á vissum hraða fór þetta hljóðfall að tákna hreina, áhyggjulausa skemmtun: Hér er poppið mætt, en þetta var líka lífseigt í öllu rokki.
5) Diskó og pönk eru stundum álitin andstæður, en þau eru skyldari en margan grunar. Bæði fæddust um miðjan 8. áratuginn sem andsvar við þeim sjálfumglaða og smáborgaralega tón sem kominn var í rokkið. Meginstoðin í þessu andsvari var hljóðfallið: Í báðum tilfellum eru þyngri áherslur taktsins færðar aftur á 1. og 3. slag. Í diskóinu er það gert til að endurheimta dans og erótík gamla rokksins, en pönkið vill höndla og ýkja með þessu ögrun þess. Þau útfæra vitaskuld hljóðfallið hvort á sinn hátt, en hið nýstárlega yfirbragð beggja var þessari taktbyltingu að þakka. Reyndar eru þau líka lík í hljómagangi: Engar óþarfa flækjur, bara fáir og beinskeyttir hljómar. Pönkið er bara aðeins hraðara...og saklausara.