Í grunnskólum á að kenna tónmennt. Það stendur í námsskrá. Samt eru dæmi um að skólum takist illa eða alls ekki að sinna þessari kennslu. Kannski hugga menn sig við að þetta sé þó bara aukagrein. Heyr á endemi!
Í árþúsundir var tónlist sökkullinn í menntun ungmenna, í bland við lestur og reikning auðvitað. Ég veit ekki hvenær þetta breyttist eða hver breytti því og af hverju.
Má ég árétta hér eitt og annað sem kemur þessu við?
1) Fyrstu skólaárin eiga að byggja upp námsfærnina, leggja grunninn. Lestur, málþroski og rökhugsun skipta hér miklu. Þetta verður að kenna. Þar fyrir utan held ég að markmið grunnnáms sé aðeins eitt: Að þjálfa samhæfingu hugar og atferlis. Það opnar þær rásir sem síðan eru lífæðin í hverju því sem maðurinn tekur sér fyrir hendur. Til er fag sem sérstaklega fæst við þetta: Tónlist. Engin önnur grein býr yfir sama jafnvægi vitsmuna og athafnar, skynjunar og skilnings, sjálfstæðis og samvinnu.
2) "Vissulega þarf að gera veg listnáms sem mestan". Svo mælir fagurgalandi atkvæðaveiðarinn. Hægan. Málið snýst ekki um listir. Og þótt tónlistin sé þroskameðalið snýst það ekki heldur um tónlist. Við erum að tala um menntun barnanna okkar. Mér gæti verið slétt sama um tónlist almennt, það vill bara svo til að hún hefur þennan eiginleika sem er einstakur og sem börnin þarfnast.
3) Vörumst að bókgera um of fög eins og tónlist og íþróttir. Íþróttafræði getur ekki komið í stað íþrótta eða fróðleikur um tónlist í stað söngs. Tónlist er fyrst og fremst iðja og hún eykur menntun og vellíðun barnanna.
4) Eða halda einhverjir að tilgangur tónmennta sé umfram annað fræðsla, svona til að gera börnin þátttakendur í menningunni síðar meir? Eru þá íþróttir kenndar til að auka aðsókn á völlinn? Nei, tónmennt er fyrir börnin, ekki menninguna. Þau þurfa fyrst og fremst að uppgötva þá tónlist sem þau sjálf búa yfir. Manneskja sem hefur fengið góða menntun þarf nefnilega ekki að læra að listir skipta máli, hún finnur það.
5) Ég er ekki að segja að önnur listmennt sé aukaatriði í náminu heldur einfaldlega að hún kemur ekki í stað tónlistarinnar. Tónmenntin er reyndar til góðs fyrir allar aðrar listir.
6) Ef stjórnvöld standa aðgerðarlaus meðan tónmenntakennsla hopar í skólunum er það forkastanleg vanræksla, ekki á tónlistarnámi, ekki á listnámi eða menningu, heldur á MENNTUN.