Oft rugla menn saman hversdagslegri merkingu orðsins fallegur og hugmyndinni um listræna fegurð. Í tónlist lýsir þetta sér þannig að talið er fallegt það sem í raun er bara væmið, upptekið af snoturleik yfirborðsins. Trúin á sérstaka listræna fegurð var reyndar á undanhaldi á síðustu öld. Fyrr má samt rota en dauðrota.
1) Við hljótum að fallast á að listaverk búa yfir einhverri orku, einhverjum sannleika sem ekki takmarkast við yfirborðið eitt. Við getum kallað þetta fyrirbæri hvað sem við viljum. Ég hef yfirleitt kosið að notast við orðið fegurð.
2) Fallegt yfirborð eða viðmót hefur aldrei verið eina markmið listamanns. Það getur jafnvel dregið úr trúverðugleika verksins, rétt eins og pjátur eða smeðjulegt viðmót dregur oft úr trausti okkar til manna. Það er því ekki nægilegt að skynjun verks veiti einhverja nautn, það er jafnvel ekki nauðsynlegt. Hefðu Monteverdi eða Beethoven verið "fagurkerar" væru þeir öllum gleymdir í dag. Þá þekkjum við það mæta vel úr list samtímans að ófrýnilegt yfirborð dregur ekki endilega úr gildi verks. Listræn fegurð er handan við yfirborðið þótt hún skíni í gegn um það.
3) Tilfinningin sem listræn fegurð vekur líkist meira ánægjunni af einhverju sem gengur upp: Sókn í fótbolta, brandara, stærðfræðisönnun, maklegum málagjöldum.
4) Samt gengur gott listaverk aldrei upp eins og reikningsdæmi. Það magnar upp eitthvert ójafnvægi sem situr síðan í okkur.
5) Galdurinn er hins vegar sá að þetta ójafnvægi virðist rétt og nauðsynlegt þegar við skynjum verkið. Frekar vandasamt væri að lýsa nánar hvað hún er þessi nauðsyn. Stundum auðveldara að svara því eftir á en fyrirfram.
6) Listræn fegurð felst sem sagt í nauðsynlegu ójafnvægi.
7) Þetta rímar síðan við lífið sjálft. Í lífinu er ekkert til sem heitir jafnvægi. Það er hins vegar þrungið af nauðsyn.
8) Nauðsynin í verkinu helgast af kunnáttu höfundarins, ójafnvægið af innblæstri eða innsæi. Það er því kunnátta og innsæi sem getur af sér gott listaverk.
9) Því má bæta við að strangt til tekið myndast fegurðin – þetta nauðsynlega ójafnvægi – í sambandi okkar við verkið, ekki í því sjálfu. Þess vegna er erfitt að bera verk saman og gera upp á milli þeirra svo algilt sé. Þetta er eins og með ástina. Hún myndast líka í sambandi tveggja. Annað hvort er hún eða ekki og enginn kvarði gildir víst um magnið.
10) Eða er hún dauð, fegurðin, og einlæg væmnin ein það sem eftir er?