Það fellur að og fjarar síðan út. Þar á milli getum við ímyndað okkur að vatnsmassinn stoppi eitt augnablik eins og allt sem þarf að snúa við. Ef tíminn er hreyfing mætti segja að tími vatnsins nemi staðar akkúrat á þessum punkti, á liggjandanum áður en byrjar að fjara.
Inni í okkur eru víst lífsveiflur af ýmsu tagi sem sæta einhverjum sjávarföllum, mismiklum og mistíðum. Svo er sálin líka sveiflukennd og nokkuð háð umhverfinu. Þar er flóðið mishátt, en þegar stórstreymt er þá er maðurinn fullur.
1) Þegar menn fyllast sælu er það eins og augnabliksdvöl á öldutoppi áður en hún dalar. Þessu fylgir algleymi einmitt vegna þess að tíminn virðist nema staðar. Þetta heitir líka víma.
2) Að upplifa það að tíminn stöðvist er óviðjafnanlegt. Þá er eins og lífið verði skyndilega lóðrétt og hægt að finna allan mátt þess í einu. Allar spurningar hverfa frammi fyrir yfirþyrmandi sannleika nú-sins. Tímaleysi er auðvitað sigur á dauðanum, en bara um stund.
3) Þess vegna sækjast menn eftir vímu.
4) Það sem magnar mönnum vímu er til dæmis mystísk eða trúarleg upplifun, ást eða erótík, sérstök tengsl við náttúruna, dans eða háttbundin hreyfing, tónlist eða listræn upplifun. Svo er það áfengið og blessuð eiturlyfin.
5) Þetta síðastnefnda er háskalegra en aðrar leiðir að vímunni. Sá sem reiðir sig á annarlegan aflgjafa til að finna vímuna missir smám saman hæfileikann til að komast þangað hjálparlaust. Og ef við verðum með þessarri hjálp fyllri en sálin hefur efni á er hætt við að andhverfan, ógleðin, ríði okkur að fullu.
6) Tíminn stöðvast nefnilega líka á lágfjöru og þá hellast angurefnin yfir okkur öll í einu.
7) Það eru innantóm orð að vara menn við vímu. Hins vegar má benda á að lífið býður upp á hana alveg án lyfjameðferðar.
8) Hitt skiptir öllu máli, að næra vímuna, eiga innistæðu fyrir henni. Allt það sem við hugsum, lesum og upplifum hrærist saman og litar þessa litlu kjarnorkusprengingu sem algleymið er. Við getum litið á hversdagslífið sem söfnun í sprengjuna og því ríkara sem andlegt líf okkar er því magnaðri verður víman. Hægt er að lifa í ljósi vímunnar, ekki skugga hennar.
9) Lífið og listin, þetta eru bestu eiturlyfin.
10) Það hringdi í mig fugl og spurði hvort þetta væri ekki einum og skáldlegt. Jú, líklega, því þetta er einum of satt.