"Skemmtilegur taktur í þessu," segja menn gjarnan um lög sem grípa þá á sérstakan hátt. Þá eiga þeir yfirleitt við að takturinn sé ekki augljós en þó grípandi. Til að ná þessu nægir stundum að hann sé ekki fjórskiptur heldur byggi til dæmis á fimm eða sjö slaga mynstri: Take Five er fimmskipt, Money með Pink Floyd er sjöskipt.

Hinn alkunni fjórtaktur getur samt líka orðið mjög innihaldsríkur. Það þarf bara einfalda uppgötvun til: Að taktur er ekki það sama og hljóðfall. Meðan ég stappa fætinum reglubundið get ég búið til margslungið hljóðfall með röddinni eða hljóðfæri og þetta hljóðfall ýmist staðfestir taktinn eða gengur gegn honum. Sá sem kann að leika þannig kring um taktslagið – kann að nota það án þess að vera háður því - hann er sagður músíkalskur, með "swing". Þetta einkennir nær öll góð tónskáld. Frá og með Haydn verður þetta svo sérstakt kappsmál meistaranna. Og eitt forðast tónskáldið eins og heitan eldinn: Að mikilvægustu nóturnar standi alltaf á þungu taktslagi.

Ljóðskáldin þurfa líka að glíma við takt og hljóðfall. Sú vinna getur ekki orðið jafn nákvæm og í tónlistinni en þó má segja að lifandi bragur sé spurning um sveiflu. Því undrar mig hversu oft reglulegu taktslagi kvæðis er ruglað saman við góðan brag.

1) Fyrstu aldirnar notuðu íslensk skáld ekki taktfastan brag. Stuðlar og höfuðstafir mynda þungu slögin í vissu háttbundnu hljóðfalli en enginn sjálfstæður taktur tifar áfram eins og fæti sé stappað í gólf.
2) Svo breyttist íslenskan – æjá, íslenskan breytist. Þá fóru orðin að raða sér í snyrtilegar og reglulegar raðir og línurnar að ríma. Bragurinn varð taktfastur.
3) Þar með varð stuðlasetning í raun óþörf: Hví skyldi ég þurfa að nota ljóðstaf til að hnykkja á orði ef það er hvort sem er áhersla á því út af taktinum? Er það ekki hjakk?
4) En við héldum sem fastast í ljóðstafina, hlömmuðum okkur á taktslagið og þorðum lítið að leika okkur með hljóðfall. Þetta gefur íslenskum kveðskap auðvitað merkilegt sérkenni. Þessar ýktu bragreglur eiga sinn þátt í þvi hversu útbreidd kvæðalistin var. Þær hjálpuðu alþýðunni en heftu ekki. Hjálpuðu bæði að semja og muna.
5) En það verður að segjast eins og er: Það er ekki "skemmtilegur taktur" í ferskeytlunni.
6) Ljóðstafir sliguðu hins vegar ekki bestu skáldin. Það er aðdáunarvert hvernig þau geta byggt upp lifandi og jafnvel mergjað hljóðfall þrátt fyrir stuðla eða kring um þá. Segjum Jónas.